top of page

Saga félagsins

Upphaf (2001-2002):

Árið 2001 hóf Alþjóðahús starfsemi sem þekkingar- og þjónustufyrirtæki á sviði fjölmenningar og mannréttinda.

Upphaflega var húsið einkahlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kópavogsbæjar og Seltjarnarneskaupstaðar en starfsemi þess kom þá í stað Miðstöðvar nýbúa, sem heyrði undir Íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar.

Meginhlutverk hússins sneri að því að auðvelda aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi annars vegar og hins vegar að auðvelda þeim sem fyrir væru að aðlagast breyttri samfélagsmynd.  Alþjóðahúsið var einnig upplýsingamiðstöð fyrir bæði innflytjendur og innfædda um málefni innflytjenda.  Þeim sem þangað leituðu stóð til boða almenn félagsráðgjöf og einnig lögfræðiráðgjöf að kostnaðarlausu. Þar var einnig boðið upp á fræðslu, fjölbreytt námskeið af ýmsu tagi auk kennslu í samfélagsfærni o.fl. 

Bernska (2003-2006):

Þann 1. febrúar 2003 færðist Alþjóðahús í eigu Reykjavíkurdeildar Rauða Krossins með þjónustusamninga við Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstað. Verkefnum sem tengdust ört stækkandi fjölmenningarlegu samfélagi á Íslandi hafði þá fjölgað umtalsvert og þau aukist verulega að umfangi frá stofnun hússins. Þessi þróun hafði þá skapað aukið framboð á þjónustu annarra fagaðila sem leiddi til þess að Alþjóðahúsið var farið að starfa á opnum samkeppnismarkaði.

Reykjavíkurdeild Rauða Kross Íslands fagnaði þessari þróun en taldi jafnframt ekki við hæfi að deildin ætti og ræki starfsemi á samkeppnismarkaði. Rekstur Alþjóðahúss hafði gengið erfiðlega á fyrstu árum þess en með þolinmæði og þrautseigju hafði tekist að koma rekstrinum á réttan kjöl. Í september 2006 tilkynnti Reykjavíkurdeild Rauða Krossins því með stolti að Alþjóðahúsið væri reiðubúið til þess að standa á eigin fótum. Eignarhald félagsins fór þá til sjálfseignarstofnunarinnar Kosmos ses. sem tók einnig við sem rekstraraðili þess.

Mótunarár (2007-2009):

Kosmos ses. hélt áfram að þróa starf Alþjóðahúss sem var orðið leiðandi í verkefnum á sviði fjölmenningar og þróunar hennar í íslensku samfélagi. Með aðsetur að Laugavegi 37 sinnti Alþjóðahúsið einnig áfram hlutverki þekkingarmiðstöðvar og samstarfsvettvangs fólks af erlendum uppruna.

 

Efnahagshrunið á síðari hluta ársins 2008 hafði mjög neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu félagsins og mótandi áhrif á rekstur þess í kjölfarið. Þrátt fyrir dræma fjárhagsstöðu og manneklu tókst félaginu þó að halda stærstum hluta starfseminnar gangandi sem þótti aðdáunarvert miðað við aðstæður. Árið 2009 hlaut Alþjóðahúsið m.a. Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir störf sín þar sem stjórn Siðmenntar þótti starfsfólk og stjórn Alþjóðahússins hafa skilað einstöku og óeigingjörnu starfi í þágu mannúðar, manngildis og fjölmenningar á árinu. 

Fjárhagserfiðleikar félagsins reyndust félaginu þó um megn til lengdar og leiddu að lokum til þess að í lok árs 2009 var stór hluti starfseminnar að þrotum kominn. Þegar bæði Reykjavíkurborg og íslenska ríkið sögðu upp samningum sínum sama ár voru rekstrarforsendur fyrir starfi Alþjóðahússins ekki lengur til staðar og hvarf miðstöð innflytjenda í Reykjavík þá í kjölfarið. Með því lauk einnig aðkoma Kosmos ses. að félaginu.

Uppbygging 2010–2013:

Snemma árs 2010 áttu sér stað miklar breytingar þar sem ráðist var í endurskipulagningu á gervallri starfsemi félagsins. Ákveðið var að leggja niður mikið af félagsstarfsemi Alþjóðhússins en halda þeim hlutum gangandi sem höfðu þegar fundið sér fótfestu á opnum markaði. Mest öll lögfræðiaðstoð, félagsráðgjöf og samfélagsupplýsing sem Alþjóðahús hafði haft með höndum var þá færð yfir til Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða á meðan að Túlka- og fræðslustarfsemi félagsins var sameinuð undir einum hatti. Þessar breyttu rekstrarforsendur Alþjóðahússins gáfu tilefni til endurnýjunar sem stóð yfir sumarmánuðina. Til að undirstrika þessi þáttaskil í starfi Hússins var ákveðið að endurnýja ímynd þess með nýju nafni: Alþjóðasetur ehf.

 

Endurnýjun félagsins náði til allrar starfseminnar: Túlkaþjónustan uppfærði allar upplýsingar um starfandi túlka og upprifjunarnámskeið í túlkaþjónustu voru haldin í kjölfarið; Samhliða því voru allar upplýsingar um kaupendur og starfsfólk þeirra uppfærðar og sérstök námskeið haldin sem sneru að kaupum og nýtingu þjónustunnar; Þá fór þýðendaþjónustan í gegnum svipað ferli þar sem allar upplýsingar voru uppfærðar og sí-strangari kröfur þýðinga opinberra skjala innleiddar; Íslenskukennslan tók einnig á sig nýja mynd þar sem nýstárlegar kennsluaðferðir með áherslu á gagnvirka þátttöku nemenda voru hafðar í fyrirrúmi.

Alþjóðasetur gegndi á þessu tímabili einnig lykilhlutverki í þremur evrópskum teymisverkefnum sem spönnuðu heimsálfuna endilanga. Sú þátttaka jók gríðarlega við gagnlega þekkingu félagsins á því er varðar aðlögun innflytjenda á Íslandi um lengri eða skemmri tíma og efldi fræðslustarfsemina enn fremur. Sú innspýtingin í fræðslustarfsemina féll vel að þörfum innflytjenda og strax í lok vetrarins 2012-2013 var Alþjóðasetur orðið eitt af þremur stærstu skólum í kennslu íslensku sem öðru tungumáli á Íslandi. Teymisverkefnin voru einnig mikil lyftistöng fyrir orðstýr félagsins erlendis og færðu henni dýrmæt tengsl við stofnanir og starfsfólk í Evrópu sem fást við sambærileg verkefni.

Sérhæfing (2013-2015):

Með sí-aukinni aðsókn í íslenskukennslu samhliða aukinni eftirspurn eftir tungumálaþjónustu hélt starfsemi félagsins áfram að vaxa ört: Árið 2012 hafði félagið náð samningi um túlkaþjónustu við Landspítalann og stóð uppi sem eina túlkaþjónusta landsins með saming við bæði spítalann, borgina og ríkið eftir gerð rammasamninga Ríkiskaupa árið 2013; Evrópsku teymisverkefnin náðu hápunkti sínum þar afrakstur þeirra var kynntur með pompi og prakt meðal annars á Hótel Natura, Grand Hotel og einnig í Belgíu fyrir framan mörg hundruð gesti hvaðanæva úr Evrópu; Starfsendurhæfingarnámskeiðið „Framtíð í sátt“ sem Alþjóðasetur hafði verið að þróa frá 2012 hlaut styrkveitingu frá Menntamálaráðuneytinu og hóf göngu sína þar sem atvinnulausir innflytjendur fengu alhliða starfsendurhæfingu sérhannaða að þörfum þeirra; Kvöldskóli íslenskukennslunnar náði einnig nýjum hæðum þar sem hátt í 1000 nemendur sóttu skólann árið 2013.

Öll þessi fjölbreyttu verkefni, Evrópsku teymisverkefnin, íslenskukennslan, tungumálaþjónustan og félagslega hlið innflytjendamála toguðu Alþjóðasetur hvert í sína áttina svo hætta var á að auðlindir félagsins teygðust of þunnt. Með reynslu gamla Alþjóðahússins að baki ákvað stjórn félagsins því að forðast samskonar fyrirkomulag og árið 2008 og finna þess í stað þessum fjórum þjónustuþáttum félagsins farveg  þar sem hægt væri að hámarka nýtingu auðlinda, koma í veg fyrir útþennslu og tryggja sem hæstu gæði þjónustunnar.

Yfir sumarið 2014 var íslenskukennslan og þróunarstarfið því flutt yfir til Mímis – Símenntunar, öll félagsþjónusta var flutt endanlega yfir til sveitarfélaganna og upplýsingaveitan yfir til Fjölmenningarseturs á Ísafirði. Alþjóðasetur hélt síðan áfram göngu sinni á frjálsum markaði sem stærsta tungumálaþjónusta landsins. Til að marka þessa stefnubreytingu félagsins var aftur ákveðið að endurnýja merki félagsins sem var afhjúpað þann 5. janúar 2015 þegar Alþjóðasetur flutti starfsemi sína í núverandi húsnæði við Álfabakka 14 í Mjóddinni.

bottom of page