top of page

ALMENNIR ÞJÓNUSTUSKILMÁLAR Alþjóðaseturs ehf., kt. 570308-0840.

Alþjóðasetur ehf. er túlka- og þýðendaþjónusta fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Eftirfarandi eru almennir þjónustuskilmálar sem gilda vegna viðskipta milli félagsins og viðskiptamanna þess nema um annað sé samið sérstaklega.

 

1. Skilmálar.

Í skilmálum þessum skulu eftirfarandi hugtök hafa þessa merkingu:

 

Með „félaginu“ er átt við Alþjóðasetur ehf. og starfsmenn þess.

Þjónusta eða verk telst „gölluð“ ef:

  1. seld þjónusta er ekki í samræmi við góða viðskiptahætti sem tíðkast hverju sinni;

  2. félagið hefur gefið rangar eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða öðrum tilkynningum sem beint er að almenningi eða viðskiptamanni sérstaklega enda hafi þær verið forsenda fyrir kaupum á þjónustu;

  3. félagið hefur ekki veitt viðskiptamanni upplýsingar sem hann hafði vitneskju um eða hefði mátt hafa vitneskju um og hafa þýðingu fyrir framkvæmd verksins;

  4. árangur þjónustu félagsins verður minni eða hefur minna notagildi en ella fyrir viðskiptamann eftir að áhætta flyst aftur til hans og rekja má orsök þess til vanrækslu félagsins;

  5. seld þjónusta víkur að öðru leyti frá því sem samningur félagsins og viðskiptamanns kveður á um.

„Viðskiptamaður“ er einstaklingur eða lögpersóna sem pantar eða óskar eftir þjónustu félagsins.

„Verk“ er sú þjónusta sem félagið vinnur fyrir viðskiptamann, sbr. skilgreiningu á „þjónustu“.

„Verktaki“ er beinn eða óbeinn undirverktaki félagsins sem og starfsmenn, umboðsmenn og undirverktakar þeirra.

„Þjónusta“ þýðir verk sem félagið tekur að sér fyrir viðskiptamann, þ.m.t. túlka- og þýðingaþjónusta auk annarrar þjónustu sem félagið býður upp á á hverjum tíma fyrir sig og unnin er af félaginu. Öll verk sem félagið vinnur fyrir viðskiptamann fellur undir skilgreiningu þjónustu.

Með „þriðja manni“ er átt við einstakling eða lögpersónu sem stendur utan eiginlegs samningssambands félagsins og viðskiptamanns en nýtur þó góðs af þeim hagsmunum sem samið er um og getur eignast beinan rétt til samningsefnda.

 

2. Gildissvið.

Skilmálar þessir gilda um þjónustu sem félagið tekur að sér fyrir viðskiptamann, hvort sem greitt er fyrir hana eða ekki, að því marki sem slík þjónusta fellur ekki undir ófrávíkjanleg lög eða aðra skilmála félagsins sem sérstaklega hefur verið samið um skriflega að skuli gilda um réttarsamband félagsins og viðskiptamanns.

 

Komi til þess að ósamræmi verði á milli skilmála þessara annars vegar og ófrávíkjanlegra laga og/eða annarra skriflegra skilmála félagsins hins vegar sem sérstaklega hefur verið samið um að gildi um réttarsamband félagsins og viðskiptamanns, skulu skilmálar þessir víkja fyrir nefndum skilmálum og lögum.

 

Ákvæði skilmála þessara gilda um samningssamband félagsins, viðskiptamanns og þriðja manns ef honum er til að dreifa. Ef ágreiningur rís milli félagsins, viðskiptamanns og/eða þriðja manns skulu skilmálarnir sömuleiðis gilda við úrlausn málsins fyrir dómstólum, hvort sem kröfur eigi rætur að rekja til vanefnda aðila innan eða utan samnings. Skilmálarnir skulu einnig gilda þegar deilt er um ætlaða skaðabótaskyldu félagsins, viðskiptamanns eða þriðja manns innan eða utan samninga, jafnvel þótt bótaskylda hafi stofnast vegna ásetnings, stórfellds gáleysis eða höfnun samnings.

 

3. Þjónusta.

Félagið skuldbindur sig til þess að veita þá þjónustu sem það tekur að sér fyrir viðskiptamann á eðlilegan og vandvirkan hátt.

 

4. Ábyrgð félagsins á veittri þjónustu og ábyrgðartími.

4.1. Ábyrgð.

Félagið ber skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum skaðabótaréttar á beinu tjóni viðskiptamanns sem rekja má til ásetnings eða stórfellds gáleysis félagsins eða starfsmanna sem það ber ábyrgð á með þeim undantekningum sem fram koma í skilmálum þessum. Sönnunarbyrði um skaðabótaábyrgð félagsins hvílir á þeim sem heldur því fram að félagið beri ábyrgð.

 

4.2. Upphaf ábyrgðar.

Í öllum tilvikum skal félagið bera ábyrgð á veittri þjónustu frá þeim tíma er viðkomandi þjónusta hófst.

 

4.3. Lok ábyrgðar.

Í öllum tilvikum skal lok ábyrgðar á veittri þjónustu miðast við þann tíma er viðkomandi þjónustu er lokið.

 

4.4. Sönnunarbyrði fyrir gallaðri þjónustu félagsins

Viðskiptamaður og/eða þriðji maður ber sönnunarbyrðina fyrir því að þjónusta félagsins hafi verið gölluð.

 

5. Fjárhæð skaðabóta og undanþága frá ábyrgð.

5.1. Ákvörðun bótafjárhæðar.

Viðskiptamaður og/eða þriðji maður ber sönnunarbyrði fyrir því fjárhagslega tjóni sem hann verður fyrir vegna gallaðrar þjónustu eða annarra vanefnda félagsins.

 

Þegar félaginu ber að greiða viðskiptamanni eða þriðja manni skaðabætur vegna galla á þjónustu eða annarra vanefnda félagsins ber að reikna fjárhæð bóta eftir verðmæti þjónustu samkvæmt þjónustureikningi. Fjárhæð bóta skulu reiknast með eftirfarandi hætti:

  • Vegna þjónustureiknings að fjárhæð 1 – 50.000 krónur án vsk. greiðast að hámarki 100.000 krónur í skaðabætur.

  • Vegna þjónustureiknings að fjárhæð 50.001 – 100.000 krónur án vsk. greiðast að hámarki 200.000 krónur í skaðabætur.

  • Vegna þjónustureiknings að fjárhæð 100.001 – 200.000 krónur án vsk. greiðast að hámarki 300.000 krónur í skaðabætur.

  • Vegna hærri þjónustureiknings en að fjárhæð 200.001 krónur án vsk. greiðast að hámarki 400.000 krónur í skaðabætur.

 

Liggi verðmæti samkvæmt þjónustureikningi ekki fyrir skulu skaðabætur reiknaðar eftir verðmæti þjónustu sömu tegundar og af sömu gæðum þegar verkið var unnið. Sönnunarbyrðin fyrir verðmæti þjónustu samkvæmt framansögðu hvílir á viðskiptamanni.

 

Bætur vegna munatjóns ber að reikna hlutfallslega, þó þannig að bæturnar geta aldrei numið hærri fjárhæð en ef altjón hefði orðið. Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum að greiða hærri bætur vegna munatjóns en sem nemur 100.000 krónum.

 

5.2. Beint, óbeint eða afleitt tjón vegna seinkunar á að ljúka þjónustu.

Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á beinu, óbeinu eða afleiddu tjóni sem orsakast vegna óviðráðanlegra tafa eða seinkunar á ljúka þjónustu eða verki. Ef viðskiptamaður óskar eftir að fá verk sem unnið er af félaginu sent á ákveðinn stað, s.s. þýdd skjöl, þá ábyrgist félagið ekki að gögnin verði afhent á ákveðnum tíma eða nái sérstakri notkun nema um slíkt hafi sérstaklega verið samið fyrirfram með skriflegum hætti.

5.3. Ábyrgðarleysisástæður.

Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á neinu tjóni sem rekja má til einhverra neðangreindra ástæðna:

  1. gáleysi eða ásetnings viðskiptamanns eða manns á hans vegum;

  2. gallaðri þjónustu, nema gallinn verði rakinn til stórfellds gáleysis eða ásetnings félagsins eða starfsmanna sem það ber ábyrgð á;

  3. röngum eða ófullnægjandi upplýsingum frá viðskiptamanni eða mönnum á hans vegum;

  4. stöðvun eða takmörkun vinnuafls, verkföllum eða verkbönnum, hvort sem félagið á hlut að máli eða ekki og hvort sem framangreint er löglegt eða ekki;

  5. alvarlegum ófyrirsjáanlegum atburðum (force majeure), svo sem náttúruhamförum, ófriði, geislavirkni, uppþotum, eða öðrum þeim ytri aðstæðum sem félagið ræður ekki yfir.

 

5.4. Eigin sök viðskiptamanns.

Bætur til viðskiptamanns skal lækka eða fella þær niður ef sannað er að viðskiptamaður eða einhver á hans vegum hefur verið meðvaldur að tjóninu vegna ásetnings eða gáleysis. Auk þess ber viðskiptamanni í öllum tilvikum að takmarka tjón sitt í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.

5.6. Vextir.

Ekki skal koma til greiðslu vaxta af kröfum á hendur félaginu fyrr en frá uppkvaðningu dóms.

6. Tilkynningar um tjón.

Viðskiptamaður skal senda félaginu skriflega tilkynning um galla á keyptri þjónustu eða verki innan 30 daga (almanaksmánuður) frá þeim degi sem félagið afhenti viðskiptamanni verkið eða þjónustuna. Gæti viðskiptamaður ekki þessa glatar hann rétti sínum til að bera fyrir sig gallann vegna tómlætis.

 

Í tilkynningu viðskiptamanns um galla skal koma skýrt fram um hvaða þjónustu ræðir, í hverju gallinn felst, ástæðu þess að félagið er haldið ábyrgu vegna viðkomandi atviks ef við á, upplýsingar um tjón viðskiptamanns og fjárhæð skaðabótakröfu ef krafist er skaðabóta vegna galla sem félagið getur ekki bætt úr, sbr. næstu málsgrein.

 

Að fenginni tilkynningu viðskiptamanns um galla skal félagið fá tækifæri til að bæta úr gallanum. Viðskiptamaður getur ekki krafist afsláttar frá verði, rift samningi um kaup á þjónustu eða krafist skaðabóta enda sé bætt úr galla innan sanngjarns frests og án kostnaðar eða verulegs óhagræðis fyrir viðskiptamann.

 

Sé ekki tilkynnt um tjón samkvæmt framansögðu skal réttur viðskiptamanns til þess að krefja félagið um bætur vegna atviksins falla niður sökum tómlætis.

7. Þóknun.

7.1 Verð

Viðskiptamaður skal greiða félaginu þóknun fyrir þau verk og þá þjónustu sem félagið veitir viðskiptamanni. Miða skal þóknun og greiðslu hennar við gildandi gjaldskrá félagsins á hverjum tíma ef ekki er um annað samið.

Gjaldskrárupplýsingar eru veittar að beiðni viðskiptamanns og munu taka mið af umbeðinni þjónustu.

Athugið að álag getur átt við til viðbótar við grunnverð, ss. fyrir veitta þjónustu um kvöld, nætur, helgar og hátíðar.

Akstursálag getur átt við eftir staðsetningu. Þjónusta telst neyðarútkall sé hún umbeðin samdægurs, og er innheimt útkallsálag samkvæmt því.

7.2 Veitt þjónusta

Panti viðskiptamaður þjónustu í skemmri tíma en lágmarksútkall gildandi verðskrár skal hann greiða fyrir lágmarksútkall. Panti viðskiptamaður þjónustu í lengri tíma en lágmarksútkall gildandi verðskrár skal hann greiða fyrir umbeðinn tíma hvort sem hann nýtir allan þann tíma eður ei. Sé þjónusta veitt í lengri tíma en beðið var um þegar hún var pöntuð skal viðskiptamaður greiða fyrir heildartíma þjónustunnar. Ekki er hægt að tryggja að verktaki geti veitt þjónustu umfram umbeðinn tíma.

7.3 Afpantanir

Viðskiptamanni bera að greiða félaginu þóknun fyrir þau verk og þá þjónustu sem er afpöntuð sama dag og þau verk eða sú þjónusta hefði átt að vera veitt. Telst þá verkið full unnið og/eða þjónustan full nýtt. Miða skal þóknun og greiðslu hennar við gildandi gjaldskrá félagsins á hverjum tíma ef ekki er um annað samið.

 

Greiði viðskiptamaður ekki útgefinn reikning vegna þjónustu félagsins á gjalddaga er félaginu heimilt að krefja viðskiptamann um dráttarvexti frá gjalddaga og kostnað sem kann að falla til vegna innheimtu þóknunar, án frekari tilkynningar.

7.4 Akstur

Viðskiptamaður skal greiða félaginu akstursgjald vegna þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Höfuðborgarsvæðið er hér skilgreint sem Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Garðabær. Akstursgjald skal miða við uppgefnar vegalengdir Vegagerðarinnar og nema sömu upphæðar og heimill frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk, skv. gildandi reglum Ríkisskattstjóra hverju sinni. Viðskiptamaður skal einnig greiða félaginu tímagjald fyrir akstur utan höfuðborgarsvæðisins. Það tímagjald skal miðast við eina mínútu á hvern ekinn kílómetra skv. uppgefnum vegalengdum Vegagerðarinnar.

8. Haldsréttur og samningsveð.

Komi til þess að viðskiptamaður greiði ekki útgefinn reikning vegna þjónustu félagsins er félaginu heimilt, til að fá bættan kostnað vegna vinnu eða útlagðs kostnaðar sem rekja má til þjónustusamnings við viðskiptamann, að selja verkið með þeim hætti sem félagið telur að sé hagstæðast hverju sinni, á kostnað og áhættu viðskiptamanns og án þess að tilkynna viðskiptamanni það sérstaklega.

Nægi söluverð verksins ekki til gera upp kröfu félagsins á hendur viðskiptamanni á félagið rétt á að fá mismuninn greiddan úr hendi viðskiptamanns ásamt vöxtum og kostnaði. Félaginu ber að skila mismun söluvirðis og fjárhæð reiknings til viðskiptamanns ef söluvirði verksins er hærra en fjárhæð reiknings ásamt vöxtum og kostnaði.

 

9. Ábyrgð viðskipamanns.

Viðskiptamaður ber skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Viðskiptamaður ábyrgist að hann hafi fullt umboð til þess að biðja um tiltekna þjónustu og samþykkja þessa skilmála.
Viðskiptamaður getur ekki krafist þess að fá staðfestingargjald endurgreitt ef hann afpantar þjónustu eða þjónusta fellur óvænt niður. Þá getur viðskiptamaður ekki vikið sér frá ábyrgð á greiðslu fyrir þjónustu skv. gildandi gjaldskrá félagsins þótt þjónustan falli óvænt niður vegna atvika sem félagið eða starfsmenn og verktakar félagsins bera ekki ábyrgð á. Viðskiptamanni er að auki skylt að bæta og halda félaginu skaðlausu vegna allra afleiðinga þess að:

  1. upplýsingar varðandi þjónustu sem hann gefur félaginu eru rangar, ógreinilegar eða ófullnægjandi;

  2. viðskiptamaður eða menn á hans vegum vanefna og/eða brjóta gegn ákvæðum skilmála þessara.
     

10. Verktakar.

Félaginu er heimilt að fela verktökum til að annast þau störf og þá þjónustu sem félagið tekur að sér gagnvart viðskiptamanni. Allir starfsmenn félagsins og verktakar þess eiga rétt á að bera fyrir sig öll ákvæði skilmála þessa, eftir því sem við á, enda gerir félagið samning við viðskiptamann um viðkomandi þjónustu bæði fyrir sína hönd og sem umboðsaðili og fulltrúi slíkra starfsmanna og verktaka.

 

11. Sending tilkynninga.

Ef gert er ráð fyrir í skilmálum þessum að annar hvor aðili skuli senda gagnaðila tilkynningu, hverju nafni sem hún nefnist, þá skal hún send með sannanlegum hætti til þess heimilisfangs sem aðilar hafa gefið upp eða lögheimili þeirra eins og það er skráð þegar tilkynning er send af stað. Sé þess gætt skal tilkynningin hafa þá þýðingu og þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa, jafnvel þótt hún komi afbökuð, of seint eða alls ekki til viðtakanda.

 

12. Fyrning kröfu.

Undir öllum kringumstæðum skal félagið í allra síðasta lagi vera laust undan ábyrgð vegna galla eða annarra vanefnda þegar eitt ár (almanaksár) er liðið frá því að verkið eða þjónustan var afhent viðskiptamanni.

 

13. Lögsaga.

Hverskyns deilumál sem upp koma á milli félagsins, viðskiptamanns og/eða þriðja manns sem ekki tekst að leysa með samningum skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

14. Gildistími.

Þessir almennu þjónustuskilmálar félagsins taka gildi frá og með 1. október 2014. Félagið áskilur sér rétt til þess að breyta þessum skilmálum hvenær sem er og verður viðskiptamönnum félagsins, á hverjum tíma fyrir sig, tilkynnt um slíkar breytingar áður en þær taka gildi.

 

15. Önnur atriði.

Ef þjónustusamningur þessi tekur ekki til ágreiningsefna sem rísa kunna vegna þjónustu félagsins skulu almennar reglur laga nr. 42/2000 um þjónustukaup hafðar til hliðsjónar við úrlausn ágreinings í þeim tilvikum sem viðskiptamaður er neytandi í skilningi laganna en annars almennar reglur laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup í þeim tilvikum sem viðskiptamaður er ekki neytandi.

bottom of page